.comment-link {margin-left:.6em;}

í dagsins önn...........

hugleiðingar mínar

sunnudagur, júní 10, 2007

ferðasaga

það er greinilegt að aldurinn er farin að færast yfir mig. síðasta vika var frekar spaugileg. á mánudaginn mætti ég samviskusamlega í vinnu eins og lög gera ráð fyrir, nema hvað að kl að verða níu og ég var að horfa á dagatalið þá kviknaði á ljóstýru í höfðinu á mér..... hummm nú er fjórði júní í dag.... ég hélt að það ætti að vera á miðvikudegi (hvernig sem ég hef nú fengið það út þar sem ég vissi nú að 1. var á föstudegi). svo fékk ég þessa skelfingartilfinningu í mig um að ég ætti að vera einhvers staðar annarsstaðar. ég fikraði mig að símanum valdi símanúmer, bað um ákveðna manneskju í símann og jú viti menn.... ég átti að vera á hornafirði en ekki á landspítalanum að vinna. það var búið að senda fólk út a flugvöll til að ná í mig, það var búið að bóka eitthvað af sjúklingum í myndatöku og voða gaman,.... eini gallinn var að ég var ekki mætt. ég skammaðist mín niður í hæla og jafnvel neðar ef það er hægt. serstaklega vegna þess að ég hafði ætlað að koma tveimur vikum fyrr en var svo mikill sauður i það skiptið að það var allt upp pantað í flugið þegar ég loksins lét verða af því að panta flug fyrir mig, svo ég var þá á biðlista og það var sama sagan búið að bóka sjúklinga og allt tilbúið nema ég... komst ekki.

ég komst að samkomulagi að ég myndi þá koma næsta miðvikudag (daginn sem ég hélt ég hefði átt að fara) og dreif mig í að bóka flug en viti menn allt upppantað. argh... ég var farin að reita hár mitt. mér til mikillar gleði þá voru þeir nýbúnir að bæta við flug á fimmtudögum og þá var laust svo ég skellti mér á það flug og hringdi austur og bað hana í guðanna bænum að bóka ekki sjúklingana á miðvikudeginum þvi ég kæmist ekki.

upp rann svo fimmtudagurinn, og rauk á fætur upp úr sex, þetta er eins og að fljúga til útlanda þetta er svo snemmt, og var ótrúlega fegin þegar ég var komin út á völl. nú ætlaði ég sko ekki að klúðra þessu. fór þúsund sinnum i huganum hvort ég væri ekki með allt sem ég þyrfti að taka með mér... mælinn, phantomið, skápúða, mig, tölvuna.... jújú allt var með í för og ég tölti samviskusamlega út í vél hjá flugfélaginu erni settist niður og svaf alla leiðina til hornafjarðar, þar sem andrés beið eftir mér til að skutla mer á heilsugæsluna. ég bað hann margfaldlega afsökunar á fýluferðinni á mánudeginum, var enn að skammast mín.

vinnan gekk vel, kenndi þeim að framkvæma gæðaeftirlit, tókum nokkrar myndir, í hádeginu var partý starfsmanna, vistmanna og fjölskyldna, harmonikkutónlist og grillmatur, svaka stemming. en annars var þetta bara vinna vinna vinna og ég átti að vera mætt aftur út á flugvöll kl fimm til að fara heim.

andrés skutlaði mér aftur út á völl og við vorum svona að spjalla um daginn og veginn, og hann sagði mér að eftir að flugfélagið ernir tók við þá hefði bara einu sinni orðið einhver seinkun upp á 15 mín á vélinni. í því beygðum við upp að flugvellinum og hann sagði... núnú þeir eru ekki búnir að kveikja ljósin á brautinni :|

þegar inn var komið var okkur sagt að það væri svona 15 mín bið í vélina og ég bara fékk mér eina flösku af coke light (ekkert pmax í boði) og hóf biðina. var þarna að spjalla við fólk og var hin slakasta. korterið varð að hálftíma og hálftíminn að klukkutíma áður en ákvörðunin var tekin. það var svo lágskýjað að vélin gat ekki lent, en hún gat lent á egilsstöðum. nú var tvennt í boði, gista á hornafirði og fara morgunin eftir, eða fara með rútu til egilsstaða og fljúga þaðan heim. ég var nú ansi lúin þannig að tilhugsunin um að fara bara að sofa og fljúga á morgun var ósköp freistandi, andrés sagði mér að það væri laust rúm á fæðingardeildinni sem ég gæti fengið að nota ( mér fannst það hryllilega fyndið) en þar sem spáin fyrir morgundaginn var ekkert spes þá ákvað ég að taka enga sensa og skellti mér í þennan akstur, enda aldrei keyrt þarna um, aldrei komið til egilsstaða.

við vorum átta í þessum van sem skutlaði okkur á milli. sex höfðu verið saman í einhverri ferð á vatnajökul (þar af voru tveir útlendingar) og svo ég og ein kona sem var hornfirðingur. þetta var voða heimilislegt, byrjuðum á því að fara heim til bílstjórans til að ná í peninga fyrir bensíni, svo var stoppað á bensínstöð, fyllt á og auðvitað keypt nammi til að maula á á leiðinni. og loks var haldið af stað. maðurinn við stýrið hefur nú örugglega keyrt þetta hundrað sinnum og rúmlega það, en ég og útlendingarnir tveir aftur í, vorum að skíta á okkur úr hræðslu. hann fór svo hratt í allar beygjur, og svo var lausamöl sem við runnum til í, og maður átti fullt í fangi með að haldast kyrr í sætinu þrátt fyrir öryggisútbúnaðinn. ég sá fram á það að ég yrði með bullandi harðsperrur í rassinum eftir ferðina þar sem ég sat með spenntar rasskinnar alla rúmlega tvo tímana sem við vorum á leiðinni. mikið skelfing var ég fegin þegar við sáum flugvöllinn.

þá áttum við nú eftir að finna flugvélina okkar og flugmennina. ég arkaði upp að innritunarborðinu og sagði.... jæja nú erum við komin frá hornafirði, hvað eigum við nú að gera? strákurinn í afgreiðslunni horfði stórum augum á mig, þannig að ég byrjaði upp á nýtt: vélin sem átti að lenda á hornafirði og lenti hér í staðinn og er að bíða eftir okkur.... við erum sem sagt komin... ég var farin að hugsa... omg nú er eitthvað klúður í gangi vélin er örugglega farin eða lent á akureyri eða eitthvað álíka gáfulegt. allt í einu kom smá líf í andlitið á stráksa og hann sagði já alveg rétt.... heyrðu ég þarf að gá hvað flugmennirnir ætla að gera. þetta fannst mér hljómar frekar illa. gá hvað þeir ætla að að gera.... var eitthvað annað i boði en að fljúga með okkur heim. þetta tók dággóða stund. við vorum vinsamlegast beðin um að bíða út í horni við útgang nr 2. og við biðum og biðum og biðum... okkur fannst þetta auðvitað vera heil eilífð, en var kannski ekkert svo rosalega langur tími, en hey við vorum nú búin að bíða frá kl fimm eftir að komast um borð í vélina. loksins loksins loksins fundust flugmennirnir og vélin okkar var þarna á planinu og við þutum út... héldum meira að segja sjálf á farangrinum okkar til að vera viss um að það myndi ekki tefja okkur.... (nú get eg bætt við á CVið mitt að ég hafi starfað sem hlaðmaður hjá flugfélagi). við komum sem sagt heim kl hálf ellefu í stað hálf sjö.

mikið skelfing var ég fegin að vera komin í rúmið mitt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home