Eitthvað það óþæginlegasta sem ég veit það er þegar ég hef verið að ganga eða tala upp úr svefni. Það gerðist einmitt í nótt (hlýtur að vera). Þegar ég vaknaði núna áðan þá var ég klædd í föt sem ég var ekki í þegar ég fór að sofa í gærkveldi. úfff. hvað var ég eiginlega að gera í nótt ég bara spyr. var ég ekki ábyggilega innandyra samt allan tímann (hugsa ég og brosi út í annað þar sem mér dettur að sjálfsögðu elskuleg systir mín í hug Tí hí hí). Mikið rosalega er þetta vont að vakna svona. Mér varð svo mikið um að ég fór bara á fætur um hæl, gat ekki hugsað mér að fara að sofa aftur. Íbúðin lítur alveg eðlilega út þannig að ég er að vona að þetta hafi ekki verið neitt alvarlegt. Ég má þá alltaf þakka fyrir að hafa farið í bolinn, en ekki verið að rölta um ber að ofan. (hrollur).
Annars hélt ég að ég væri hætt þessari vitleysu. Ég hef alla vega ekki verið vör við þetta í lengri tíma. Ég man hér á árum áður þá fannst mér verulega óþæginlegt að sofa annars staðar en heima hjá mér, vegna þess að ég var svo hrædd um að ég færi að rölta um ókunnar slóðir um miðjar nætur. Ég man eftir útskriftarferðinni til Spánar. Við vorum fjórar saman í herbergi og ég vaknaði eitt kvöldið (hafði sofnað langt á undan stelpunum) við það að strákarnir voru komnir í heimsókn og þau voru að reyna að fá mig til að tala við sig. Djöf.... var ég fúl þá. Einu sinni vaknaði ég með vínber uppi í rúmi hjá mér, og annað skipti hafði ég farið fram í eldhús og fengið mér kók (það var á kók en ekki Pepsi Max árunum) en vaknaði við það að ég var að hella því öllu á gólfið en ekki í glas. OK skúra eldhúsgólfið um miðja nótt, með viðeigandi klístri er ekki mjög spennandi verkefni.
Svo þegar við Ásmundur fórum að búa þá var ég að sjálfsögðu búin að undirbúa hann. Hann átti ekki að láta sér bregða þó ég myndi rölta aðeins um eða röfla einhver reiðinnar býsn. Svo þegar ég var ófrísk af honum Ágústi mínum þá þurfti ég að vakna um miðja nótt til að fara á klósett ( sem ég geri alla jafna ekki um miðjar nætur). Ég með mitt fílavaxtarlag var að reyna að læðast út út rúminu, þar sem mér fannst óþarfi að hann myndi vakna líka, þegar ég fann gripið þéttingsfast í nærbuxurnar mínar, og hvæst á mig: " hvert þykist þú vera að fara". Mér brá svo mikið að ég hrökklaðist aftur upp í rúm, og hvíslaði með hræðslu í röddinni: "ég ætlaði bara að fara að pissa". Eftir smá stund fékk ég nú kjarkinn aftur og komst á klósettið, en mér fannst þetta nú samt svolítið sætt. Hann var að passa að ég væri nú ekki að rölta um (guð má vita hvar) með bumbuna út í loftið.
En mér var semsagt ekki hlátur í hug þegar ég vaknaði áðan.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home