þetta er nú frí eins og frí eiga að vera. ég hef ekki gert neitt, nema skoða moggann, þvo af og til þessa larfa sem maður á, og leirtauið. Hver segir að maður eigi að puða og puða meðan maður er í svokölluðu sumarfríi. Ásm. fór nú reyndar norður á Akureyri um síðustu helgi. Hann skildi mig eftir eina heima með strákana, foreldra sína, og brúðkaup hjá ættingjum hans. Þetta var annars bara mjög fínt allt saman.
Annars er það markerðasta sem hefur drifið á daga mína núna er að ég hafði mig loksins í það að þramma á Esjuna. Mikið djö... var ég ánægð með mig þegar því var lokið. Ég fór að vísu ekki alla leið á toppinn því þegar við komum að klettabeltinu þá var komin svo mikil þoka (maður var sko alveg í skýjunum) að við ákváðum að snúa niður aftur. Svo er bara að halda þessu áfram og fara annað slagið svo maður finni hvað manni fer mikið fram. Við erum semsagt ég og Lilja í þessu tilfelli.
Annað sem ég er ekki viss um að ég hafi sagt frá hér er að nú á ég kisu. Hann heitir Gormur og er að sjálfsögðu karlkyns eins og allir aðrir í þessari ágætu fjölskyldu. Þannig að nú samanstendur fjölskyldan af mér (mamman), pabbanum, tveir strákar, einn hamstur og einn köttur. Við erum ansi fljót að fjölga okkur hér. Þetta er rosa stuð. Arnar fór í bað í fyrradag (þó það væri ekki farið að nálgast jólin) og Gormur var svo forvitinn að hann datt ofan í baðið. Ég veit samt ekki hvor varð hvekktari Arnar eða Gormur, þeir urðu svo fúlir báðir tveir. En ég hins vegar skemmti mér konunglega, og lagði þá svo báða til þerris upp í rúm.
Annars er nú farið að síga á seinni hlutann á þessu ágæta fríi. Ég byrja að vinna aftur á þriðjudaginn í næstu viku, svo þá fer nú lífið að falla í samt horf aftur. Ég hlakka líka til að byrja í skólanum í haust. Já ég veit að ég er voða undarleg en svona er lífið.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home