Nú fór allt úr skorðum. Ég er búin að sofa meira og minna í allan dag, þannig að núna er ég vöknuð. Þá sá ég mér þann kost vænstan að fara í tölvuna því ég sé fram á langa nótt.
Ég var að lesa sunnudagsmoggann. þar er grein eftir Sveinbjörn I Baldvinsson þar sem hann er að tala um minningargreinar. Hann er að velta fyrir sér hvers vegna Íslendingar skrifi svona mikið af minningargreinum. Endar greinina með því að segja að við séum einkum að skrifa minningargreinar til að létta af okkur tilfinningabyrðinni, sorginni, treganum......... "Þýðir þetta að við Íslendingar gerum inna af því en aðrar þjóðir að tjá sprelllifandi vinum okkar og vandamönnum hvað okkur þyki vænt um þá?" Þar held ég að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Við tölum ekki nóg um það sem skiptir máli. Það virðist endalaust vera hægt að vera með e-ð slúður og kjaftasögur, en þegar kemur að tilfinningum þá þarf að fara að hugsa sig um og stama og stynja. Semsagt Mér finnst þið vera frábær. Þykir alveg afskaplega vænt um ykkur öll (allan þennan fjölda sem er að lesa þetta he he). ok ég veit þið eruð ekki nema þrjár sem lesið þetta. Ég gæti nú svo sem farið að telja upp einhver nöfn, en hver nennir því svo sem (ég gæti líka óvart gleymt e-m, það væri nú ekki gaman) Þeir taka þetta til sín sem eiga það.
Ég las nú líka litla frétt um að það væri ekkert mý á Mývatni núna. OK en það sem ég skyldi ekki var af hverju húsráðendur þyrftu að leita annað eftir æti. ég var að sjálfsögðu tilbúin að æsa mig upp í hverslags vitleysingar þetta væru eiginlega. Éta þau mýið. Ég hefði nú bara verið fegin að vera laus við það. Þar sem ég gat ekki sætt mig við þetta, þá las ég fréttina aftur með gagnrýnum augum. Og viti menn það voru ekki Mývetningar sem voru svona vitlausir heldur var ég ekki með gleraugun á nefinu. Þetta voru Húsendur sem sagt fuglarnir, sem þurftu að leita annað. Eftir það fór ég niður að ná í gleraugun, svo ég myndi ekki gera mig að alg... fífli við lesturinn á restinni á mogganum. Ég bið því Mývetninga og húsendur þeirra auðmjúklega afsökunar á að hafa ruglað þeim saman eitt augnablik.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home