.comment-link {margin-left:.6em;}

í dagsins önn...........

hugleiðingar mínar

sunnudagur, júlí 20, 2003

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ELSKU ÁGÚST MINN


Og tíminn flýgur. Maður er svo önnum kafinn við að vera í fríi og gera ekki neitt, að maður nennir ekki einu sinni að setjast við skriftir. Í dag eru 8 ár síðan að hann Ágúst minn leit heiminn augum. Mér finnst ekki vera svona langt síðan, en svona er þetta nú. Hann verður fluttur að heiman áður en maður veit af. Svo nú er bara að fara að setja á kökurnar og bíða eftir gestunum. hehe. Ætli þetta verði ekki eins og í fyrra. 2 vikna afmælisveisla. Það er svona þegar það er bara einn fengitími á ári, þá fæðast afkvæmin á sama árstíma. Og svo komast aldrei allir í einu til að halda bara eina veislu. Enda er mér alveg sama. Mér finnst þetta bara fínt. Nú bara bökum við og eigum alltaf nóg ef einhver afmælisgestur myndi líta inn. Annars fjölgaði í fjölskyldunni okkar á föstudaginn. Við gáfum strákunum saman hamstur í afmælisgjöf. Hann hefur hlotið það virðulega nafn Smjatti, sem kemur af því að hann smjattar mjög þegar hann borðar. Það er almenn hamingja með kvikindið, mikið leikið við hann, og miklar áhyggjur hafðar af því hver ætti að passa hann í gær þega við fórum í bíltúrinn.


Við fengum okkur semsagt bíltúr í gær, fórum í Þjórsárdalinn. Það var þessi líka brakandi blíða. Þegar við komum austur þá lagðist maður í grasið og gat sig ekki hreyft allan daginn. Reyndar fórum við svo í göngutúr niður að á þar sem hægt var að kæla sig niður. Þetta var alveg meiriháttar. Að vísu voru sumar volandi, því þeim var allt of heitt. Meira að segja pabbi, sem er nú ekki vanur að setja út á smá hita, lá meðvitundarlaus í grasinu þegar við komum, með handklæði á höfðinu. Kóteletturnar grilluðust bara sjálfar í skottinu á bílnum, þurftum bara að bæta smá kryddi við og "vola" þær voru til. Eini gallinn sem ég sé við svona er að geta ekki fengið neitt kalt að drekka. Vatnið í krönunum var ekki einu sinni kalt þannig að það var ekki um auðugan garð að gresja. Pepsi Max við 30 gr. er ekki mjög girnilegt, en hitamælirinn sýndi þessa tölu í forsælu. En ég er ekki að kvarta. Þetta var alveg æðislegt. Meira svona takk.