.comment-link {margin-left:.6em;}

í dagsins önn...........

hugleiðingar mínar

fimmtudagur, maí 22, 2003

Þetta var allt hið undarlegasta mál. Eftir að hafa hóstað úr mér lifur og lungum þá fór ég út að grilla í gærkveldi, og viti menn allur hósti og hæsi hurfu eins og dögg fyrir sólu. Ekki að ég sé að kvarta. Annars var hún Birna að fá einkunnir og gekk alveg rosalega vel. Hún má vera mjög ánægð með sig. Til hamingju með það, svo maður tali nú ekki um bílprófið. Maður er bara að verða gamall.

Annars er ég mjög ánægð með mig þessa dagana. Ég er búin að drösla mér út kl 06 á morgnana til að hlaupa um hverfið. Ég er meira að segja búin að draga Mundu með mér. Reyndar sendi ég Mundu sms fyrsta morguninn sem hún ætlaði með mér og spurði hvort hún væri vöknuð og hvort hún ætlaði með. Ég fékk ekkert svar þannig að ég ákvað að hún væri sofandi, og fór bara ein út. Um hádegið hringdi Birna í mig og spurði hvort það væri ekki í lagi með mig. Hvort ég hefði virkilega haldið að hún nennti að fara með mér út á morgnana til að hlaupa. hmhmhm.. Ég sem sagt sendi sms ið á vitlausan stað. Á meðan sat Munda fram í stofu og beið eftir að ég myndi hringja í sig. Svona geta hlutirnir snúist í höndunum á manni. En eins og ég segi þá er ég alveg rosalega ánægð með þessa framför. Mér finnst nú eitt að fara út að hlaupa, og annað að gera það eldsnemma að morgni. Svo er bara að halda áfram á sömu braut.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Ég hef aldrei nokkurn tíman hóstað svona mikið eins og ég er að gera í dag. Ég held ég sé að verða búin að hósta upp úr og niður úr mér öllum helstu líffærum. Því líkt og annað eins. Ég væri sko löngu farin heim úr vinnunni ef ég væri ekki að fara á fund núna kl 15. Svo náttúrulega týndi ég röddinni í morgun þannig að það heyrist ekkert í mér. Mikið held ég að hann Ásmundur verði glaður þegar að hann fer að spjalla við mig á eftir. Hann hefur svo gaman að því þegar ég reyni að tala þegar ég er svona. Kannski ég taki fyrir hann nokkur lög líka, fæ mér koníak og eitthvað huggulegt með. Annars segir hún Lilja að ég sé að bulla. Ég hafi oft hóstað svona mikið áður, en hvað er að marka hana. Hún hló eins og fífl að mér í morgun þegar ég fór að tala við hana með mínum undurfagra róm. hmhm. Haldið þið að það sé nú vinnufélagi.

Úpps nú er fundurinn að byrja þannig að ég verð bara að halda áfram síðar

mánudagur, maí 19, 2003

já já ég skal lofa að standa mig betur í skrifunum. Annars hef ég afskaplega lítið til málanna að leggja þessa dagana. Birna er heima hjá mér með Ágústi því að amma vildi fá sumarfrí. Ég veit ekki hvernig þetta er eiginilega með þessar ráðskonur. Nú safnast bara saman óhreinn þvottur og allt í volli. Hún verður í marga daga að vinna þetta allt saman upp. Svo verður saumaklúbbur hjá mér á miðvikudaginn. Það eru stelpurnar úr menntaskólanum sem ætla að koma til mín núna. Hafið þið tekið eftir því hvað svona lagað getur allt lent á nokkrum vikum. Það er ekkert svo langt síðan ég var með A.SM.A klúbb, svo hittumst við Tækniskólagellurnar hjá mér í síðustu viku. Saumó í næstu. Ég veit ekki hvar þetta endar allt saman. EN þetta er svo gaman allt saman.

sunnudagur, maí 18, 2003

ég er hér, ég bara gleymdi mér eitt augnablik. OK augnablikið var 5 dagar eða svo en hver er svo sem að telja.

Þá er enn ein helgin búin. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað dagarnir líða hratt. Maður verður komin á eftirlaun áður en maður veit af. Annars fórum við fjölskyldan í Þjórsárdalinn í dag (öðru nafni Ömmu sveit). Tilefnið var að gömlu hjónin voru að kaupa sér nýtt hjólhýsi. Þetta er voða fínt hjá þeim og ég vona að þau eigi eftir að njóta þess um ókomna tíð.
Tengdó voru hjá okkur yfir helgina, og þá notuðum við hjónin tækifærið og fórum í kvikmyndahús. Þetta gerist ekki oft, en við erum búin að fara tvisvar núna á stuttum tíma. Núna sáum við View from the Top eða hvað hún nú heitir. Ég verð nú að segja að ég hef séð margar skemmtilegri myndir en þessa. Ég gat nú glott út í annað nokkrum sinnum en ekki meira en það. En það var engu að síður fínt að geta skroppið svona út saman.

Um helgina var svo líka sýning í Myndlistaskólanum. Þannig að ég hef nú tekið þátt í minni fyrstu sýningu. Héðan í frá verð ég óstöðvandi. he he. Svo er ég líka í vandræðum með rauðvínið. Það hleðst upp hjá mér. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég drekki ekki nógu mikið. Þannig er að ég er búin að vinna tvisvar sinnum í rauðvínshappdrætti, 10 flöskur í hvort skipti. Nú er svo komið að ég á 14 flöskur upp á skáp. Ég veit ekki hvar þetta endar.